Announcing: BahaiPrayers.net


More Books by Ridvan

1996-153BE
1997-154BE
1998-155BE
1999-156BE
2000-157BE
2001-158BE
2002-159BE
2003-160BE
2004-161BE
2005-162BE
2006-163BE
2007-164BE
2008-165BE
2009-166BE
2010-167BE
2011-168BE
2012-169BE
2013-170BE
2014-171BE
2015-172BE
2016-173BE
2017-174BE
2018-175BE
Free Interfaith Software

Web - Windows - iPhone








Ridvan : 2014-171BE
Allsherjarhús réttvísinnar
Ridvan 2014 / 171BE
Til bahá'ía um heim allan
Ástkæru vinir,

Þrjú ár eru liðin frá því að núverandi tímabil hófst í framvindu hinnar guðlegu áætlunar – verkefninu sem tengir fylgjendur Bahá’u’lláh í einu samstilltu andlegu átaki. Tíminn sem vinum Guðs er ætlaður til að ljúka þessum áfanga er aðeins tvö ár. Enn sem áður knýja tvær meginhreyfingar vaxtarferlið áfram – stöðugur straumur þátttakenda í gegnum námskeiðaröðina sem þjálfunarstofnunin veitir og samfelldur vöxtur og viðgangur umdæmanna. Þessi tvíþætta hreyfing hefur margeflst vegna orkunnar sem ungmennaráðstefnurnar á síðasta ári leystu úr læðingi. Hæfnin sem bahá’í heimurinn hefur öðlast til að kalla til þjónustu mikinn fjölda ungs fólks hefur aukist og getur nú borið ríkari ávöxt. Það sem eftir lifir þessa tímabils er brýnt að huga að mikilvægum verkefnum sem miða að því að styrkja þær vaxtaráætlanir sem nú þegar eru í gangi og hefja nýjar. Áður en þessum áfanga lýkur er samfélag hins mesta nafn í góðri aðstöðu til að fjölga núverandi umdæmum um þau tvö þúsund sem eftir eru uns settu markmiði er náð.

Það gleður okkur mjög að sjá að unnið er ötullega að þessu verkefni um allan heim við hinar fjölbreytilegustu kringumstæður í umdæmum sem þegar eru um þrjú þúsund talsins. Mörg umdæmi hafa náð því stigi að kennslustarfið kemst á skrið með fáeinum einföldum aðgerðaáætlunum. Í öðrum gerist það eftir ítrekaðar aðgerðalotur að þeim einstaklingum sem taka frumkvæði innan ramma áætlunarinnar fjölgar og starfsemin stigmagnast. Þegar fengin reynsla eykur gæði andlegrar fræðslu fær hún meira aðdráttarafl og laðar sálir til þátttöku. Öðru hvoru getur orðið hlé á starfinu eða einhver hindrun komið í veg fyrir áframhald en að leita samráðs um ástæður örðugleikana með þolinmæði, hugrekki og þolgæði verður til þess að starfið kemst aftur á skrið. Í æ fleiri umdæmum vex umfang vaxtaráætlunarinnar og flækjustigið eykst í réttu hlutfalli við aukna hæfni þriggja höfuðpersóna áætlunarinnar – einstaklingsins, samfélagsins og stofnana trúarinnar – og til verður umhverfi þar sem gagnkvæmur stuðningur ríkir. Það sem gleður okkur og búast mátti við er að þeim umdæmum fjölgar þar sem hundrað eða fleiri einstaklingar vinna að því að gera leiðina greiða fyrir þátttöku þúsund eða fleiri í mótun lífsmynsturs sem er andlegt, öflugt og umskapandi. Að baki ferlinu allt frá upphafi er auðvitað sameiginleg sókn í átt til þeirrar sýnar á efnislega og andlega velferð sem hann, sem er Lífgjafi heimsins, setti fram. En þar sem svo margir koma að verki má greina hreyfingu sem nær til alls íbúafjöldans.

Þessi hreyfing sést sérlega vel í þeim umdæmum þar sem á að reisa tilbeiðsluhús. Eitt slíkt er til dæmis í Vanuatu. Vinirnir sem búa á eynni Tanna hafa unnið stórvirki í því að vekja athygli á fyrirhuguðu tilbeiðsluhúsi og hafa þegar virkjað á margvíslegan hátt að minnsta kosti þriðjung hinna 30.000 íbúa í vaxandi umræðu um mikilvægi þess. Hæfnin til að halda úti háleitri umræðu meðal svo margs fólks hefur slípast með áralangri þjálfun í að breiða út kenningar Bahá’u’lláh og nýta áhrif öflugra þjálfunarstofnana. Unglingahóparnir á eyjunni dafna sérstaklega vel. Forystumenn þorpanna styðja þá og hvetja vegna þess að þeir sjá að þátttakendurnir eflast andlega. Þetta unga fólk eflist að hugrekki vegna þeirrar einingar og ákefðar sem býr með því. Þeim hefur ekki aðeins tekist að vinna bug á eigin deyfð og sinnuleysi heldur hafa þau fundið leiðir til að bæta samfélag sitt með ýmsum hagnýtum verkefnum. Árangurinn hefur orðið sá að fólk á öllum aldri, ekki síst þeirra eigin foreldrar, hefur fengið hvatningu til uppbyggilegra verka. Sú dýrmæta gjöf sem felst í því fyrir átrúendur og ytra samfélagið að geta leitað til svæðisráðs um leiðsögn og lausn vegna erfiðra aðstæðna hefur verið viðurkennd og ákvarðanir andlegu ráðanna hafa á sama hátt einkennst af aukinni visku og næmni. Hér er margt sem gefur til kynna að þegar einstakir þættir áætlunarinnar koma saman í eina heild, þá verða áhrifin á íbúana gagnger. Og í ljósi stöðugrar útbreiðslu og styrkingar, – þrítugustu bylgju öflugrar vaxtaráætlunar er nýlega lokið – eru vinirnir að íhuga gaumgæfilega með hinum íbúum eyjunnar hvað það þýði að Mashriqu’l-Adhkár, „sameiginleg miðstöð fyrir sálir manna“, verði reist þeirra á meðal. Með virkum stuðningi hefðbundinna leiðtoga hafa íbúar Tanna boðið fram að minnsta kosti hundrað hönnunarhugmyndir fyrir musterið, sem sýnir hversu tilbeiðsluhúsið hefur fangað hugarflugið og vakið gagntakandi vonir um þau áhrif sem það mun koma til með að hafa á líf þeirra sem búa í skjóli þess.

Þessi uppörvandi frásögn á sér hliðstæðu í mörgum þróuðum umdæmum þar sem verið er að beita kenningum Bahá’u’lláh við lífsskilyrði í hverfum og bæjum. Fólkið sem verður betur meðvitað um persónu Bahá’u’lláh, hefur á sérhverjum stað lært með því að hugleiða reynslu, með samráði og námi, hvernig það getur farið eftir sannindunum sem eru varðveitt í opinberun hans. Þannig verður stækkandi hringur andlega skyldra einstaklinga æ fastar tengdur böndum sameiginlegrar tilbeiðslu og þjónustu.

Þau samfélög sem lengst eru á veg komin leggja á aðlaðandi hátt línurnar sem önnur samfélög geta fylgt eftir. Þó er það hæfileikinn til lærdóms meðal vinanna á hverjum stað innan sameiginlegra viðmiða sem hvetur þróunarferlið, sama hver staða starfseminnar er í umdæminu. Allir leggja sitt að mörkum til átaksins, framlag hvers og eins eykur virði heildarinnar. Kraftmestu umdæmin eru þar sem vinirnir gera sér grein fyrir að hlutverk þeirra er að greina hvað þurfi að gera til að framþróun verði og skiptir þá engu hver styrkur býr í samfélaginu eða hvaða fjöldi atburða fer þar fram. Þeir finna síðan skapandi leiðir til að gera mögulegt að finna nauðsynlegan tíma og auðlindir til að ná þessu markmiði – spírandi hæfileika sem þarf að hlúa að, nýja hæfni sem þarf að afla, óreynda frumkvöðla sem fylgja þarf eftir og rými til íhugunar og endurskoðunar sem þarf að skapa. Sú staðreynd að ólíkar kringumstæður hverju sinni bera með sér ólík viðfangsefni, gefur hverju samfélagi ekki aðeins möguleika á að læra af því sem gerist annars staðar í heimi bahá’ía, heldur einnig að bæta í þann þekkingarbrunn. Með því að vera vakandi fyrir þessari staðreynd losa menn sig undan árangurslausri leit að ósveigjanlegri aðferðafræði um leið og þeir leyfa sér að vera vakandi fyrir þeirri innsýn sem vinnst á ólíkum sviðum við að skýra vaxtarferlið eftir því sem hann formast í þeirra eigin umhverfi. Þetta viðhorf er algerlega gagnstætt þröngri sýn á „velgengni“ og „mistök“ sem elur af sér æsing og lamar vilja. Þörf er á sjálfsleysi. Þegar unnið er af heilum hug að málstað Guðs mun allt sem gerist tilheyra honum og sérhver sigur unninn í hans nafni er tilefni til að vegsama hann og lofa.

Í ritum trúar okkar er svo margt sem lýsir tengslunum milli þess sem við leggjum okkur fram um að gera og þeirrar himnesku hjálpar sem veitt er sem svar: „Ef aðeins þið leggið ykkur fram,“ fullvissar Meistarinn okkur um í einni af töflum sínum, „er öruggt að þessi geisladýrð mun skína, þessi ský náðar gefa regn sitt, þessir lífgefandi vindar verða til og blása, þessi ljúfi moskusilmur dreifast víða vegu“. Í tíðum heimsóknum okkar í hin helgu grafhýsi munum við fyrir ykkar hönd biðja hinn Almáttka af djúpri einlægni að hann styðji ykkur og styrki, svo að viðleitni ykkar til að ná til þeirra sem enn hafa ekki heyrt um hinar guðlegu kenningar og staðfesta þá í málstað hans, megi verða ríkulega blessuð og að traust ykkar á takmarkalausum gjöfum hans verði óbifanlegt. Þið eruð ávallt í bænum okkar og við munum aldrei hætta að minnast þess helgaða og trúfasta starfs sem þið innið af hendi í bænaákalli okkar. Þegar við íhugum aðkallandi verkefnin sem bíða fylgjenda hinnar Blessuðu fegurðar næstu tvö árin, er ótvírætt kall Meistarans til framkvæmda hvatning til andans: „Rífið í sundur blæjurnar, fjarlægið hindranirnar, bjóðið fram hið lífgefandi vatn og vísið veg hjálpræðisins.“

Allsherjarhús réttvísinnar

Table of Contents: Albanian :Arabic :Belarusian :Bulgarian :Chinese_Simplified :Chinese_Traditional :Danish :Dutch :English :French :German :Hungarian :Íslenska :Italian :Japanese :Korean :Latvian :Norwegian :Persian :Polish :Portuguese :Romanian :Russian :Spanish :Swedish :Turkish :Ukrainian :